top of page
Search

Minningar eru dásamleg fyrirbæri!

Updated: Aug 17, 2022

Vonandi verður dagurinn verði þér og þínum eins góður og kostur er. Fullur af tilvonandi dásamlegum, skemmtilegum minningum.


Minningar eru nefnilega dásamlegt fyrirbæri. Þær geta dregið fram allan tilfinningaskalann, allt eftir því hvernig okkur leið þegar atburðurinn sem tengist minningunni átti sér stað. Vissulega geta þessar tilfinningar verið alla vega, sumar óþægilegri en aðrar. Þær geta kallað fram vanlíðan og líkamleg einkenni sem gott væri að vera laus við.




Minning og reynsla

Þegar minning og reynsla verða til, getum við sagt að ákveðið forrit verði til í huganum. Hugarforritið geymir við hvaða aðstæður það varð til, hvar, hvernig, hvað átti sér stað, hverjir voru til staðar, hvað við skynjuðum, þ.e. sáum, heyrðum, snertum, fundum lykt eða brögðuðum af. Auk þess geymir hugarforritið upplýsingar um hvernig okkur leið tilfinningalega, andlega og líkamlega. Hugarforritið tilheyrir undirvitundinni sem er nátengd ósjálfráða taugakerfinu s.s. hjarta-, æða- og kirtlakerfinu. Hugarforritið getur því framkallað nokkuð nákvæmlega þá líðan sem þú upplifðir við þá reynslu sem átti sér stað og minning þín tengist.


Undirvitundin geymir óteljandi hugarforrit sem kveikja og slökkva á sér, allt eftir því hvað þau telja best fyrir þig. Þau eru þér velviljuð en átta sig sjaldnast á því hvort að minning og reynsla sem þú átt síðan þú varst barn eigi við í lífi þínu sem fullorðinn einstaklingur. Með öðrum orðum það er alls ekki víst að öll þín hugarforrit uppfærist miðað við aldur þinn og þroska.





Dæmi úr mínu lífi

Ég sótti námskeið Páls Valssonar um skrif ævisagna og endurminninga, í Endurmenntun Háskóla Íslands. Þar máttu nemendur ef þeir vildu, lesa upp verkefni sitt, sem voru skrif um gamla minningu. Mér þótti þetta ekki mikið mál. Gekk upp að töflunni og hóf lesturinn. Nánast um leið hóf líkaminn að víbra, titra og loks skjálfa. Röddin varð óstyrk, ég fékk hnút í magann, roðnaði og hjartslátturinn jókst óþægilega. Ég var í hálfgerðu kvíðakasti fyrir framan samnemendur mína og kennarinn Páll stóð við kennaraborðið. Líklega hefur ekki farið framhjá þeim að ekki var allt með felldu því ég þurfti að beita öllum þeim ráðum sem ég kunni svo kvíðaeinkennin stöðvuðu ekki upplesturinn. Ég náði því með herkjum að lesa textann sem fjallaði um minningar úr sveitinni.


Það er hálf kaldhæðnislegt að þar sem ég stóð fyrir framan nemendur og rifjaði upp gamlar skemmtilegar minningar, skyldi gamalt hugarforrit sem byggði á reynslu og minningum um upplestur í barnaskóla, ákveða að ég þyrfti á því að halda u.þ.b. 40 árum síðar.




Framkölluð líðan

Hugarforrit geta framkallað alls konar líðan við alls konar aðstæður. Allt miðað við hvað átti sér stað þegar þau urðu til. Hugarforrit geta orðið til í undirvitundinni án þess að við höfum hugmynd um það eða við gleymum atburðinum og sú líðan sem forritið framkallar virðist koma fram án nokkurrar ástæðu.


Þegar barn fyllist kvíða þá hefur af öllum líkindum orðið til hugarforrit í undirvitund þess, sem telur að einhverjum ástæðum að það sé að hjálpa barninu. Barnið hefur líklega upplifað atburð sem olli kvíðaviðbrögðum og hugarforrit varð til. Forritið passar skilmerkilega upp á að barnið upplifi kvíðann aftur við svipaðar aðstæður, sem svo hægt og rólega geta farið að tengjast fleiri aðstæðum.



Ég sem foreldri útskýrði fyrir dætrum mínum hvernig hugurinn þeirra virkar, og að þegar vanlíðan sé til staðar þá sé líklega um hugarforrit að ræða sem veit ekki betur. Viðbrögðin séu ekki þeim „að kenna“, heldur ofurhjálplegu hugarforriti.


Manst þú eftir tilviki í þínu lífi þar sem gamalt hugarforrit lét á sér kræla?


Ég hvet þig til að skrá þig hér, hafir þú áhuga á að fá öðru hvoru senda fræðslu um hugann, næmnina eða innsæið.


Hugheilar kveðjur,

Anna Lísa

Yager meðferðarkennari.



 
 
 

Comments


bottom of page