UPP ÚR REYNSLUSKÚFFUNNI !
- Anna Lísa

- Aug 13, 2022
- 3 min read
Updated: Aug 17, 2022
Ráð, trikk og tæki
Mig langar innilega að fá að deila með þér þeim ráðum, trikkum og tækjum er varða hugann, næmni og innsæi sem ég hef áunnið mér, eftir áratuga leit að betri líðan, kennslu og vinnu með meðferðarþegum. Ég get ekki hugsað mér að sú reynsla og þekking sem hefur nýst bæði mér, nemendum mínum og meðferðarþegum, gleymist í skúffunni minni, engum til gagns.
Leitin að vellíðan
Innsæið og næmni hefur verið stór hluti af mér frá því ég var barn. Ég fann fyrir tilfinningum og líðan annarra og tók það inn á mig án þess að gera mér grein fyrir því, hvað þá að gera greinarmun á hvað var mitt og hvað var það ekki. Kvíðahnútur varð til í maganum og hægt og rólega þróaðist þunglyndi.
Seint á unglingsárunum fór ég á lyf sem héldu niðri vanlíðan minni. Fljótlega þurfti að hækka skammtinn og næst, skipta um lyf. Ég varð ósátt við að fá ekki betri lausn, vildi finna rótina að vanlíðan minni og losna við hana. Það kom því að því að ég leitaði annarra leiða, þeirra sem teljast til óhefðbundinna lækninga. Heilun, verkja-punktameðferð, dáleiðsla, nálastungur ofl. Einhvers staðar á leiðinni fór ég líka til sálfræðings. Ég sótti einnig alls konar námskeið í leit að betri líðan sem og til að finna innsæi mínu og næmni farveg. Á ákveðnum tímapunkti hætti ég á lyfjunum og tók það um ár að losna við áhrifin af þeim úr líkamanum.

Innsæið og reynslan
Hin óhefðbundna andlega leið var leiðin sem hentaði mér og hægt og rólega fór ég að nýta innsæið og næmnina til hjálpar öðrum. Draumur minn var sá að geta bætt líðan fólks án þess að nauðsynlegt væri að það tryði á eitthvað ákveðið.
Fyrir hátt í 20 árum síðan fór fólk að leita til mín í leit að betri líðan. Það vissi að ég hefði ekki hugmynd um hvað myndi gerast í tíma þeirra hjá mér, einungis að ég myndi halda í hönd þeirra og fylgja innsæi mínu. Hægt og rólega varð til meðferðarform sem ég gaf nafnið ÓM-þerapa, því ekkert heiti var til yfir það sem ég gerði. Þetta var ekki heilun, því meðferðarþeginn tók virkan þátt.

Dr. Yager, kennsla og vinskapur
Síðar fór ég í dáleiðslunám og lærði Yager meðferð og varð Yager meðferðarkennari. Það var dásamleg upplifun að uppgötva að sálfræðiprófessor skyldi hafa fundið leið til þess að hjálpa fólki að tengja fljótt og vel við innsæi sitt og nýta tenginguna til þess að finna rót andlegra og/eða líkamlegra vandamála og uppræta þau. Meðferðin gengur út á að uppfæra huga meðferðarþegans miðað við óskir hans og þroska á þeirri stundu.
Í stuttu máli þá aðlagaði ég aðferð prófessorsins, þ.e. Dr. Edwins K. Yager heitins, að börnum og við urðum miklir vinir og kollegar. Hann bauð mér með sér til Þýskalands á vegum Dr. Norbert Preetz, þar sem ég kynnti og kenndi aðferð mína, bæði í Berlín og síðar í Magdeburg. Ég fór einnig til Sviss í sömu erindagjörðum og hef einnig kennt nemendum Yager meðferðarstofnunarinnar í Mexíkó á vegum Dr. Ceicilia Barrios.

Fræðsla og skrif
Ég skrifaði kennslubók um Yager meðferð fyrir börn sem Dr. Yager hafði tilsjón með og Mexíkóstofnunin þýddi síðar yfir á spænsku fyrir nemendur sína. Barnabókina Litla-Mús og töfrar hugans skrifaði ég ásamt dætrum mínum til að börn og foreldrar gætu kynnt sér hvernig hugurinn virkar.
Í september mun skáldsagan Yrði það ekki dásamlegt… koma í bókabúðir, en hana skrifaði ég eftir að Dr. Yager trúði mér fyrir draumi sínum um einhvers konar sögu sem gerði lækningmætti hugans skil.
Kæri lesandi, ég vona innilega að þú getir nýtt þér á einn eða annan hátt þann fróðleik, ráð, tæki og trikk sem ég mun draga upp úr reynsluskúffunni minni. Viljir þú fá sendan fróðleik úr skúffunni góðu hvet ég þig til að skrá þig hér.
Hugheilar kveðjur,
Anna Lísa
Yager meðferðarkennari


Comments